Skólastarf hafið

26.8.2023

Þá er nú farið að færist líf í skólana okkar aftur eftir langt og gott sumarleyfi.

Þá er nú farið að færist líf í skólana okkar aftur eftir langt og gott sumarleyfi. Í liðinni viku hófust grunnskólarnir en leikskólarnir opnuðu u.þ.b. viku fyrr. Fullráðið er við Leik- og grunnskólann í Hofgarði, við Grunnskóla Hornafjarðar en enn er óráðið í nokkrar stöður við Leikskólann Sjónarhól. Það hefur orðið til þess að ekki hefur verið hægt að taka inn öll börn sem þó höfðu fengið úthlutað leikskólaplássi.

Starfsþróun starfsfólks

Fyrstu dagar hvers skólaárs einkennast jafnan að undirbúningi og námskeiðahaldi. Að þessu sinni var öllu starfsfólki fræðslu- og frístundasviðs hóað saman á fræðsludag þar sem viðfangsefnið var fjölmenning annars vegar og uppeldi til ábyrgðar og samskipti hinsvegar. Milli 90 og 100 manns sóttu fræðsluna sem var vel heppnuð að undanskildu því að flug féll niður og var hluti námskeiðsins því í gegnum teams en slíkt er aldrei eins áhrifaríkt.

Starfsfólk kom frá Hofgarði, Sjónarhól, Grunnskóla Hornafjarðar, Tónskólanum, Íþróttamiðstöðinni, Vöruhúsinu, Þrykkjunni og fræðsluskrifstofunni auk þess sem fólki af velferðarsviðinu, frá FAS og Sindra var líka boðið. Markmiðið með sameiginlegu námskeið var bæði að styðja við mikilvæga starfsþróun hjá starfsmönnum en einnig að gefa fólki færi á að hittast og spjalla saman. Þessi hópur er allur að vinna með sömu börnin og var hugmyndafræði dagsins í anda þess að það þurfi heilt þorp til að ala upp eitt barn. Þá er betra að allir vinni að sama markmiðinu og viti hvað hinir eru að gera. Þannig verður samfélagið betra fyrir börnin okkar en líka fyrir fullorðna fólkið.