Betri bær-Skrúðganga á morgun

23.5.2017

Í tilefni umhverfisdaga Grunnskóla Hornafjarðar verður blásið til skrúðgöngu og sýningu á verkum barnanna. 

Þessa dagana eru umhverfisdagar í fullum gangi í skólanum. Unnið er þvert á bekki og taka allir nemendur þátt fyrir utan 10. bekkinga sem vinna hörðum höndum að því að undirbúa lokaverkefnið sitt. Þessir umhverfisdagar enda á skrúðgöngu á morgun miðvikudag og hefst hún um 10:00 við Heppuskóla. Vonandi tileinkum við umhverfinu samt alla daga hér eftir.

Eins og yfirskriftin ber með sér er áhersla umhverfisdaganna að bæta bæinn okkar og er útgangspunkturinn „Hvað getum við gert til að bæta bæinn?“.  Verkefnin sem unnið er að eru afar fjölbreytt eins og sjá má á myndunum en allir bæjarbúar eru hvattir til að taka þátt í skrúðgöngunni og koma og sjá hvað nemendur hafa verið að vinna að. Gengið verður frá Heppuskóla eftir Víkurbraut að Hafnarbraut. Þaðan upp að Hafnarskóla þar sem skólinn fær Grænfáninn afhentan í þriðja sinn en það er sérstaklega viðeigandi á umhverfisdögum. Að lokum liggur leiðin niður að miðsvæði þar sem götuleikhúsið sýnir listir sínar, fatamarkaður opnar í Heppuskóla, hóparnir sem hafa verið lengst í burtu sýna hvað þeir hafa verið að gera og ýmislegt fleira.

Í skrúðgöngunni verða ýmsar uppákomur en nemendur hafa m.a. búið til hljóðfæri, æft dans, búið til ruslaskrímsli og gert ýmislegt fleira allt úr afgöngum.

Sjáumst í skrúðgöngu og á sýningu á morgun