Skuggakosningar 2018

8.5.2018

Samhliða komandi sveitarstjórnarkosningum mun Ungmennaráð Sveitarfélagsins Hornafjarðar standa fyrir skuggakosningum.

 Skuggakosningar eru kosningar fyrir ungmenni á aldrinum 13-17 ára þar sem þeirra skoðun fær að koma fram. Öll vitum við að kosningaþátttaka ungs fólks síðustu ár hefur verið virkilega slæm. Til þess að bregðast gegn því hafa skuggakosningar komið til sögunnar, þær gilda vitaskuld ekki en þær kenna ungu fólki hvernig á að kjósa, hvernig þær fara fram og kenna þeim að taka upplýsta ákvörðun.

Skuggakosningarnar eru til þess að auka lýðræðisvitund ungs fólks, auka kosningaþátttöku þeirra í framtíðinni og sýna fram á það að öll málefni eru málefni þeirra og við eigum að fá tækifæri til þess að hafa áhrif á stefnu og stjórnun sveitarfélagsins.

Í tilefni skuggakosninganna hélt Ungmennaráð pallborðsfund fyrir ungmennin sem fram fór í dag þriðjudaginn 8. maí.

Þar mættu fulltrúar allra flokka sem bjóða fram til sveitarstjórnarkosninganna, kynntu stefnumál sín og fengu síðan spurningar úr sal. Til að brjóta upp fundinn fengum við frambjóðendurna til þess að dansa með okkur dansinn “Build banana” sem snýst um að synga og dansa gera sig að hálfgerðu fífli. Hátt í hundrað ungmenni mættu, bæði frá Grunnskólanum og FAS sem spurðu spurninga úr öllum áttum um hin og þessi málefni. Þökkum við öllum sem komu kærlega fyrir komuna og þátttökuna og hlökkum til að sjá ykkur á kjörstað.