Staðan í dag 3. Apríl – Covid-19

3.4.2020

Nú er mikilvægt að gleyma sér ekki þó staðan sé góð við verðum að standa saman og fara varlega á meðan sóttvarnarlæknir telur nauðsynlegt að halda samkomubanni áfram. Það eru að greinast hópsýkingar í smærri samfélögum á landsbyggðinni, við viljum forðast það eins og hægt er.

Covid faraldurinn er áfram í hægum vexti á öllu landinu en tölfræðina má lesa á www.covid.is. Varðandi spá um áframhaldið þá virðist fjöldi tilvika fylgja bestu spá samkvæmt www.covid.hi.is sjúkrahúslegur og fjöldi sjúklinga á gjörgæslu fylgir verstu spám, veikindin eru alvarleg. Það er mikilvægt að halda þolinmæði varðandi samkomubann til að hægja á útbreiðslunni með það markmið að heilbrigðisþjónustan ráði við ástandið.

Nú er komið í útgáfu rakningarforrit sem hægt er að hlaða niður í síma og má nálgast upplýsingar um forritið á covid.is. Ég hvet alla til þess að hlaða niður forritinu sem mun auðvelda og flýta fyrir rakningu ef upp koma smit hér í samfélaginu.

Hér á Hornafirði hefur verið rólegt hvað varðar COVID-19 síðustu daga. Heilsugæslan er að taka eitt til sex sýni á dag en ekki fengið jákvæð svör frá neinum úti í samfélaginu, einungis frá útsettu fólki í sóttkví. Heildar fjöldi smita í sveitarfélaginu er átta, sjö eru í einangrun og einum er batnað. Þessar upplýsingar verða sýnilegar á covid.is, Lögreglan á Suðurlandi birtir einnig upplýsingar. Það kemur fram heildarfjöldi hverju sinni í sóttkví og einangrun, það eru því ekki heildartölur frá því fyrsta smit greindist fyrir Sveitarfélagið Hornafjörð.

Nú er mikilvægt að gleyma sér ekki þó staðan sé góð, við verðum að standa saman og fara varlega á meðan sóttvarnarlæknir telur nauðsynlegt að halda samkomubanni áfram. Það eru að greinast hópsýkingar í smærri samfélögum á landsbyggðinni, við viljum forðast það eins og hægt er.

Skilaboðin eru því þessi:

  • Allir með öndunarfærasýkinga og þeir sem finna flensueinkenni VERÐA AÐ VERA HEIMA HJÁ SÉR.
  • Ferðast innanhúss um páskana, eða a.m.k. ekki út fyrir þitt heilbrigðisumdæmi.
  • Þessir Páskar eru ekki tíminn fyrir fjölskylduboð, sér í lagi ekki ef hluti af fjölskyldunni býr hér ekki.

Við viljum fækka slysum, veikindum og minnka álagið á heilbrigðiskerfið.

Að því sögðu óska ég öllum góðrar vetrarhelgi.

Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri.