Staðan í dag 31.3.2020 – Covid-19

31.3.2020

 Þróunin í Sveitarfélaginu Hornafirði er enn stöðug, litlar breytingar hafa átt sér stað.

Staðan á Íslandi er sú að 1.086 smit hafa verið staðfest og 110 staðfest smit á Suðurlandi. Stór hópur er í sóttkví eða 9.236. Þróunin í Sveitarfélaginu Hornafirði er enn stöðug, litlar breytingar hafa átt sér stað. Heilsugæslan ræður vel við ástandið eins og það er í dag, mönnunin er góð en starfsfólk er undir álagi. Heilsugæslan er í sambandi við fólk í byrjun sóttkvíar og lokin. Rauðikrossinn fylgir fólki eftir á meðan sóttkví stendur og hefur það reynst vel. 

Allt bentir til að samkomubannið sé að skila árangri og er því mikilvægt að slaka ekki á vörnum. Það er mikilvægt að íbúar fylgi þeim reglum sem fylgja samkomubanninu, meðal annars er mælst að börn leiki eingöngu við börn úr sama árgangi eða bekk, það er mikilvægt að ítreka það. Veðrið hefur verið gott undanfarna daga og börn á leik út um allt. Við þurfum að passa upp á varnirnar og sér í lagi á sameiginlegum svæðum eins og á sparkvellinum. Verum vakandi!

Sóttvarnarlæknir undirbýr þjóðina undir að samkomubann verði framlengt og því er gott að setja sig í þær stellingar.

Sveitarfélagið mun í þessari viku kynna aðgerðarpakka við því efnahagsástandi sem blasir við næstu mánuði. Við vitum að ástandið er erfitt í atvinnulífinu og sér í lagi tengt ferðaþjónustunni. Það mun birta til þó þetta ár verði eflaust erfitt, við höfum jú sömu náttúruperlur og umhverfi, því munu ferðamenn halda áfram heimsækja Hornafjörð.

Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri