Sveitarfélagið Hornafjörður og Vatnajökulsþjóðgarður skrifa undir samstarfsyfirlýsingu um framtíðarsýn í húsnæðsmálum á Höfn

25.2.2022

Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri og Magnús Guðmundsson, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs skrifuðu undir viljayfirlýsingu á stjórnarfundi þjóðgarðsins sem var haldinn í Hoffelli þriðjudaginn 22. febrúar s.l.

Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri og Magnús Guðmundsson, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs skrifuðu undir viljayfirlýsingu á stjórnarfundi þjóðgarðsins sem var haldinn í Hoffelli þriðjudaginn 22. febrúar s.l. Á myndinni standa fyrir aftan Matthildi og Magnús, Ásgerður Gylfadóttir, formaður bæjarráðs og Auður Ingólfsdóttir, formaður stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs.

Markmið samstarfsyfirlýsingarinnar er að vinna hugmyndavinnu sem miðar að því að bæta skrifstofuaðstöðu hjá starfsfólki þjóðgarðsins á Höfn og að skoðaðir verði möguleikar á því að setja upp gestastofu með áhjöklasýningu í samstarfi beggja aðila og mögulega með aðkomu fjárfesta. Í dag leigir þjóðgarðurinn Gömlubúð og rennur samningurinn út í mars 2023. Húsnæðið hentar illa sem skrifstofuhúsnæði undir starfsfólk Vatnajökulsþjóðgarðs og sýningin í gestastofunni þarfnast endurnýjunar. Starfsmönnum hefur fjölgað jafnt og þétt á Höfn og eru nú 6 starfsmenn með aðstöðu í Gömlubúð og í Nýheimum en í þarfagreiningu þjóðgarðsins kemur fram að væntingar eru um að starfsmannafjöldinn geti farið upp í allt að 10 á næstu árum.

Sveitarfélagið og Vatnajökulsþjóðgarður hafa átt í góðu samstarfi undanfarin ár og nú síðast kom þjóðgarðurinn að breytingum á húsnæði á Hrollaugsstöðum með fjárframlagið að upphæð 43 m.kr. í formi fyrirframgreiddrar leigu fyrir starfsmannaíbúðir.

Með samstarfsyfirlýsingu eru báðir aðilar að lýsa jákvæðri framtíðarsýn um uppbyggingu þjóðgarðsins í sveitarfélaginu sem leiðir vonandi til þess að metnaðarfull jöklasýning verði sett upp á Höfn og tækifæri fyrir fleiri stofnanir á vegum ríkisins að setja upp skrifstofuaðstöðu.

Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri