Tilkynning til íbúa Sveitarfélagsins Hornafjarðar vegna samkomubanns.

16.3.2020

Kæru íbúar! Stjórnendur og starfsfólk hafa nú unnið að því að undirbúa starfsemi sveitarfélagsins vegna samkomubanns sem hófst á miðnætti. Það er mikilvægt að íbúar og starfsfólk sveitarfélagsins takist á við þetta verkefni af jákvæðni og samhug. Þetta er samfélagsverkefni sem miðar að því að vernda þá sem eru viðkvæmir.

Starfsemi sveitarfélagsins verður með breyttu sniði næstu fjórar vikurnar. Allt skipulag miðast við að fara í eftir tilmælum yfirvalda um samkomubann. Það er ljósta að aðstæður breytast hratt og er því viðbúið að skipulag geti breyst með skömmum fyrirvara. Við nýtum fréttamiðla sveitarfélagsins og samskiptaleiðir stofnana til upplýsingagjafa.

Íbúar eru hvattir til að fylgja tilmælum Almannavarna í einu og öllu og kynna sér það efni sem er inn á heimasíðunni www.covid.is.

Helstu ákvarðanir sem teknar hafa verið eru eftirfarandi:

  • Leikskólinn Sjónarhóll verður opinn á hefðbundnum tíma frá og með þriðjudegi 17. mars og í samræmi við tilmæli frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Almannavörnum ríkisins.
  • Grunnskóli Hornafjarðar verður með breyttu sniði frá og með 17. mars. Unnið er að útfærslu skólastarfs og verður það kynnt foreldrum í lok dags.
  • Tónlistakennsla helst með óbreyttum hætti þar sem um einstaklingskennslu er að ræða. Hópakennsla fer fram með þeim takmörkunum sem tilmæli segja til um.
  • Kátakot verður opið fyrir 1. og 2. bekk.
  • Frístundastarf er í endurskoðun og verða nánari upplýsingar sendar út fljótlega. ÍSÍ hefur gefið út þau tilmæli að allt íþróttastarf falli niður til 23. mars.
  • Sundlaug Hornafjarðar verður opin á hefðbundnum tíma með þeim fjöldatakmörkunum sem tilmælin segja til um.
  • Báran er opin milli kl. 8-12 fyrir eldri Hornfirðinga til heilsubótar en lokuð utan þess tíma.
  • Félagsþjónustan verður skert næstu fjórar vikurnar. Ekki verður opið fyrir mat í Ekrunni fyrir aðra en þá einstaklinga sem þar búa. Hægt er að fá heimsendan mat í staðinn. Ekki verður opið fyrir mat á sunnudögum í Ekrunni.
  • Félagsstarf hjá Félagi eldri Hornafirðinga fellur niður í Ekrunni.
  • Stofnanir sveitarfélagsins eru almennt lokaðar fyrir utanaðkomandi aðila.
  • Ráðhús sveitarfélagsins er lokað og er íbúum bent á íbúagátt og tölvupóst til að senda inn erindi.
  • Sýningar menningarmiðstöðvar eru lokaðar.
  • Bókasafnið er opið en hreinlæti er sinnt sérstaklega vel. 

Nánari upplýsingar munu birtast á heimasíðum skólanna og íþróttafélagsins. Vefur sveitarfélagsins er notaður til upplýsingagjafar ásamt facebook síðu þess. Við hvetjum íbúa til að halda ró sinni og takast á við þetta verkefni af festu. Ekki má gleyma brosinu og gleðinni þrátt fyrir erfiðar aðstæður.

Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri