• Hornafjordur_grein

Tilkynning um mistök við álagningu fasteignagjalda

1.7.2025

Komið hefur í ljós að mistök voru gerð við álagningu fasteignagjalda hjá sveitarfélaginu á árunum 2020 til 2024. Um mannleg mistök er að ræða þar sem ekki var kannað með uppfærslu á byggingarstigi nýbygginga, en það þarf að gera handvirkt.

Fjármálastjóri hefur nú farið yfir allar nýbyggingar sem náðu byggingarstigi 7 á árunum frá 2010 til 2025. Við yfirferðina kom í ljós að röng álagning á nýbyggingum er bundin við tímabilið frá árinu 2020 til 2024. Aðeins voru um fjórtán eignir í sveitarfélaginu sem reyndust vera með ranga álagningu og námu ógreidd gjöld vegna þess kr. 5.131.531.

Jafnframt voru eldri eignir kannaðar af handahófi og reyndust gjöldin á þeim rétt.

Yfirstandandi ár var leiðrétt þegar í ljós kom að mistök hafi verið gerð svo allir álagningarseðlar eiga að vera réttir fyrir árið 2025.

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 16. júní 2025, að fengnu áliti lögmanns, að innheimta ekki vangoldin gjöld aftur í tímann fyrir árin 2020 til 2024 þar sem um mistök af hálfu sveitarfélagsins var að ræða.

Þeir sem fengu ranga álagningarseðla verða upplýstir um umfangið með bréfi frá fjármálastjóra, en ítrekað er að vangoldin gjöld verða ekki innheimt aftur í tímann umfram yfirstandandi ár.