Um uppbyggingu við Skaftafell – skýringar og samhengi
Mikil umræða hefur verið á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum um uppbyggingu gistihúsa við Skaftafell. Sú umræða er skiljanleg – við erum að tala um einstakt svæði sem margir bera sterkar tilfinningar til. Um leið er mikilvægt að umræðan byggi á réttri mynd af ferlinu, forsendunum og því sem í raun hefur verið samþykkt.
Um hvað snýst málið?
Uppbyggingin sem nú stendur yfir er á einkalandi
utan marka Vatnajökulsþjóðgarðs. Sveitarfélagið fer þar með skipulagsvald
samkvæmt skipulagslögum, líkt og annars staðar innan sveitarfélagsins.
Uppbyggingin byggir á deiliskipulagi sem var unnið og samþykkt í samræmi við
gildandi lög, með opinni kynningu, umsagnarfrestum og aðkomu lögboðinna
umsagnaraðila.
Í umræðunni hefur komið fram að verið sé að reisa 70 hús. Rétt er að árétta að byggingarheimild hefur verið veitt fyrir 13 húsum í fyrsta áfanga framkvæmda. Gert er ráð fyrir að næstu áfangar fari af stað síðar, í samræmi við skipulag og eftir atvikum ný leyfi. Uppbyggingin er því stigskipt, en ekki í fullum gangi á einu bretti.
Áform um uppbyggingu á svæðinu eiga sér nokkra sögu. Upphaflegt deiliskipulag fyrir Skaftafell III var samþykkt á árunum 2020–2022. Síðar var heimiluð sambærileg uppbygging á aðliggjandi landi, Skaftafelli IV, sem leiddi til þess að heildarfjöldi heimilaðra húsa á svæðinu varð allt að 70 – 35 á hvoru svæði. Sú ákvörðun var tekin af núverandi meirihluta og samþykkt samhljóða í bæjarráði á síðasta ári.
Eru þetta „tveggja hæða hús“?
Ég veit að þetta kann að virðast þannig þegar
horft er á framkvæmdirnar, en húsin eru ekki tveggja hæða í hefðbundnum
skilningi. Það sem skiptir mestu máli þegar ásýnd byggðar er metin er
umfang hennar og ytri stærðir – og þær breyttust ekki við skipulagsbreytingu
árið 2024.
Grunnflötur húsanna er áfram 40 m², hámarksmænishæð er áfram 6 metrar og heimild fyrir einhalla þaki var til staðar bæði fyrir og eftir breytinguna. Í breyttu deiliskipulagi var annars vegar felld niður krafa um sérstaka hámarkshæð útveggja og hins vegar sett hámarksstærð á milligólf inni í húsunum. Þær breytingar höfðu fyrst og fremst tæknilegan tilgang og breyta ekki ásýnd byggðarinnar út á við.
Hvort í húsum séu milligólf eða ekki hefur lítil sem engin áhrif á það hvernig byggðin birtist í landslaginu. Það sem sjáanlegt er – hæð, form og stærð húsa – hélst því óbreytt.
Um ásýnd og framkvæmdatímann
Ég skil vel viðbrögð fólks þegar horft er á
myndir af framkvæmdunum eins og þær líta út í dag. Mannvirki koma oft mjög
afgerandi út á meðan á byggingu stendur. Opið jarðrask, vinnusvæði, vinnuvélar
og hús sem ekki eru komin í sinn endanlega búning ýkja áhrifin í landslagi,
sérstaklega á opnu svæði eins og við Skaftafell.
Skipulagsskilmálar gera hins vegar skýrar kröfur um lokafrágang: notkun náttúru- og jarðlita, matte yfirborðsáferð, samræmt form og heildstæða umhverfis- og landmótun. Reynslan sýnir að slíkur frágangur skiptir sköpum fyrir það hvernig byggð fellur að umhverfi sínu. Það er bæði eðlilegt og sanngjarnt að bíða með endanlegt mat á ásýnd þar til framkvæmdum er lokið og umhverfið hefur verið fullfrágengið.
Var nægileg kynning?
Breytingin á deiliskipulagi fór í fullt
kynningar- og umsagnarferli, en ekki sem óveruleg breyting. Skipulagslýsing
og tillaga að deiliskipulagi voru auglýstar, heildarumsagnartími var tíu vikur
og öll gögn gerð aðgengileg á Skipulagsgátt. Umsagnir bárust, þar á meðal frá
Vatnajökulsþjóðgarði, og þær voru teknar fyrir í ferlinu. Ferlið í heild má
nálgast á Skipulagsgátt:
Á sama tíma er ljóst af umræðunni að framkvæmdirnar hafa komið mörgum íbúum á óvart. Sú upplifun er raunveruleg, þótt kynningarferlið hafi verið unnið í samræmi við lög og reglur. Af slíku þarf að læra, og það kallar á að við sem sveitarfélag vöndum okkur enn frekar í framsetningu og miðlun þegar um stór, sýnileg og viðkvæm verkefni er að ræða.
Að lokum
Uppbygging í Hornafirði – líkt og annars
staðar – felur alltaf í sér jafnvægi. Jafnvægi milli verndar og nýtingar, milli
umhverfis, atvinnu og samfélags. Það jafnvægi er ekki alltaf einfalt og ekki
alltaf samhljómur um niðurstöðuna.
Mitt persónulega mat á því hvernig framkvæmdir líta út á miðju byggingarstigi vegur ekki þungt í slíkum ákvörðunum. Það sem skiptir mestu máli er að ferlin séu vönduð, lögmæt og gegnsæ – og að heildarmyndin, þegar lokafrágangi er náð, endurspegli þær kröfur sem settar hafa verið í skipulagi.
Ég vona að þessi grein hjálpi til við að setja málið í samhengi og stuðli að upplýstri og málefnalegri umræðu um eitt viðkvæmasta og verðmætasta svæði sveitarfélagsins – og landsins alls.
Sigurjón Andrésson bæjarstjóri

