• 20250719_211712

Ungmennahátíðin Graffíll

Ungmennahátíðin Graffíll fór fram um helgina í fyrsta skipti.

21.7.2025

Graffíll – ný ungmennahátíð á Höfn fór vel fram og setti skemmtilegan svip á bæinn um liðna helgi.

Ungmennahátíðin Graffíll fór fram laugardaginn 19. júlí á Höfn í Hornafirði og tókst með miklum ágætum. Hátíðin var haldin í fyrsta sinn og bauð upp á fjölbreytta dagskrá sem skipulögð var af ungmennum. Góð mæting var á hátíðina, en bæði ungmenni og fólk á öllum aldri nutu dagsins. Öll atriði voru unnin og flutt af ungmennum frá Höfn og öðrum stöðum á landinu.

Dagskráin var fjölbreytt: tónleikar, myndlistarsýning, tískusýning, DJ-sett og stuttmyndasýning. Einnig var boðið upp á opið hús með leikjum, boðið var upp á að graffa, og skemmtilegt sundlaugapartí fór fram yfir daginn í Sundlaug Hornafjarðar.
Þeir sem komu fram á Graffíl 2025 voru: Tómas Nói með stuttmyndasýningu, Daníel Snær með myndlistarsýningu, og Berglind og Róbert með tískusýningu.
Tónlistarfólkið sem kom fram var: Andri, Arnaldur, Lite Fun, Brian Falcon, Brodo og Ollie, og Sigurður Pálmi. Borgur bættist við á síðustu stundu og kom öllum skemmtilega á óvart með flottu framlagi. Dagmar og Magndís komu fram og Alzbeta og Jana sem sáu um sundlaugapartíið, settu upp skapandi hornið (creative corner), komu fram með dansaðriði og enduðu svo dagskrána með DJ-setti. Þær lögðu mikið á sig til þess að gera hátíðina skapandi og skemmtilega.

DSC00517

Skreiðaskemman er fullkomið húsnæði fyrir svona hátíð – hún er svo hrá og heillandi, sem gaf viðburðinum einstakt yfirbragð. 

Veðrið slapp fyrir horn, þrátt fyrir einn og einn rigningaskúr yfir daginn, en gleðin skein í gegn hjá þátttakendum og gestum. Þakkir eru færðar Björgunarfélagi Hornafjarðar og Slysavarnadeildinni Framtíð fyrir gæslu og knattspyrnudeild Sindra fyrir að halda utan um sjoppuna, þar sem boðið var upp á ýmislegt góðgæti.


20250719_204419


Aðrir styrktaraðilar voru: Sveitarfélagið Hornafjörður, Samband sunnlenskra sveitarfélaga (SASS), Skemmtifélagið, Skinney-Þinganes, Ottó, Hafnarbúðin, Heppa, Berjaya og Rauði krossinn.

Mikil reynsla varð til við skipulagningu og framkvæmd fyrstu Graffíl hátíðarinnar, sem mun nýtast vel þegar hátíðin verður haldin aftur að ári.

Sveitarfélagið er þakklátt því unga fólki sem tók á skarið og framkvæmdi hátíðina – framtíðin er björt hjá unga fólkinu okkar!

20250719_220506Graffill_2