Ungmennaráð Hornafjarðar tekið til starfa

9.9.2025

Á síðustu dögum hafa staðið yfir kosningar í laus sæti í ungmennaráði Hornfjarðar. Í ráðinu sitja nú

· Adam Bjarni Jónsson – f.h. Grunnskóla Hornafjarðar

· Birta Ósk Sigbjörnsdóttir – f.h. FAS

· Björg Kristjánsdóttir – f.h. Grunnskóla Hornafjarðar

· Kristján Reynir Ívarsson – f.h. FAS

· Theódór Árni Stefánsson – f.h. Grunnskóla Hornafjarðar

· Selma Ýr Ívarsdóttir – fulltrúi atvinnulífsins

· Sindri Sigurjón Einarsson – f.h. Umf. Sindra

· Sigurður Gunnlaugsson – f.h. FAS

· Sunna Dís Birgisdóttir – f.h. Þrykkjunnar

· (Einn fulltrúi atvinnulífsins vantar enn og verður skipaður síðar.)

Á fyrsta fundi ráðsins sem fór fram 8. september var Selma Ýr Ívarsdóttir kosin formaður ungmennaráðs og Adam Bjarni Jónsson varaformaður. Ljóst er að ráðið er skipað öflugum og áhugasömum fulltrúum ungs fólks úr samfélaginu sem er staðráðið í því að hafa áhrif og vera málsvarar jafningja sinna í málefnum sem snerta framtíð og samfélagsþróun á Hornafirði.

En hvað er ungmennaráð og hvers vegna skiptir það máli?

Ungmennaráð Hornafjarðar er fastanefnd innan stjórnsýslu sveitarfélagsins og hefur það meginhlutverk að veita ungu fólki rödd í ákvarðanatöku sem varða samfélagið allt. Kosning í ráðið tryggir að fjölbreyttur hópur ungmenna geti tekið þátt í samtalinu um hvernig sveitarfélagið okkar er skipulagt, hverjar eru áherslur þess og hvernig því er stjórnað.

Þetta er vettvangur þar sem ungt fólk getur spurt, vakið athygli, haft áhrif og tekið þátt – en einnig þar sem starfsfólk sveitarfélagsins, kjörnir fulltrúar og nefndir geta leitað beint til ungmenna um sýn þeirra á mál sem skipta máli.

Eitt af mikilvægustu verkefnum ráðsins er að skipa áheyrnarfulltrúa í fastanefndir sveitarfélagsins, og með því tryggja að sjónarmið ungmenna heyrist beint þar sem stefna er mótuð og ákvarðanir teknar:

· Fræðslu- og frístundarnefnd: Birta Ósk Sigbjörnsdóttir (vara: Selma Ýr Ívarsdóttir)

· Velferðarnefnd: Theódór Árni Stefánsson (vara: Adam Bjarni Jónsson)

· Skipulags- og umhverfisnefnd: Sindri Sigurjón Einarsson (vara: Kristján Reynir Ívarsson)

· Atvinnu- og menningarmálanefnd: Selma Ýr Ívarsdóttir (vara: Birta Ósk Sigbjörnsdóttir)

· Hafnarstjórn: Kristján Reynir Ívarsson (vara: Sindri Sigurjón Einarsson)

Verkefni vetrarins og næstu skref

Ungmennaráðið hefur þegar sett sér metnaðarfull markmið fyrir starfsárið, þar á meðal:

· Standa fyrir Barna- og ungmennaþingi 18.–20. nóvember 2025, þar sem börn og ungmenni móta dagskrá og koma að mótun aðgerðaráætlana fyrir Barnvænt og Heilsueflandi samfélag.

· Efla tengsl við önnur ungmennaráð og ungliðahópa, með það að markmiði að byggja upp sterkara ungmennastarf í sveitarfélaginu.

· Veita bæjaryfirvöldum aðhald og minna á mikilvægi þess að hönnun og viðhald opinna svæða taki mið af þörfum og áhuga ungs fólks.

· Leggja sitt af mörkum til jákvæðrar samfélagsþróunar, með því að vekja athygli á málefnum sem skipta ungmenni máli og hafa áhrif á daglegt líf þeirra.

Ungt fólk með rödd og áhrif

Ungmennaráð Hornafjarðar vill minna á að það sem er gott fyrir börn og ungmenni, er gott fyrir samfélagið alla. Sveitarfélagið hagnast á því að ungt fólk taki virkan þátt, leggi fram hugmyndir, sýn, og taki ábyrgð.

Ráðið hvetur allar nefndir og ráð sveitarfélagsins til að vísa málum til umsagnar eða skoðunar hjá ungmennaráði og óskar eftir virku, opnu og traustu samstarfi við alla sem starfa að velferð og uppbyggingu samfélagsins okkar.