Uppeldisnámskeið fyrir foreldra í Sveitarfélaginu Hornafirði

21.12.2022

Um nokkurt skeið hefur foreldrum ungra barna í sveitarfélaginu Hornafirði gefist kostur á að sækja námskeiðið Uppeldi sem virkar – færni til framtíðar sér að kostnaðarlausu. Síðastliðið haust bætti svo sveitarfélagið um betur og býður nú foreldrum sem taka þátt einn mánuð frían fyrir sín börn í leikskóla. Næstu Uppeldi sem virkar- færni til framtíðar námskeið hér á Hornafirði verða haldin í janúar og mars 2023, fjóra þriðjudaga hvort námskeið. Hægt er að skrá þátttöku í leikskólanum Sjónarhóli; með tölvupósti til sigridurgisl@hornafjordur.is og á heilsugæslustöðinni í síma 432-2900 milli 11 og 12 virka daga.

Um nokkurt skeið hefur foreldrum ungra barna í sveitarfélaginu Hornafirði gefist kostur á að sækja námskeiðið Uppeldi sem virkar – færni til framtíðar sér að kostnaðarlausu. Síðastliðið haust bætti svo sveitarfélagið um betur og býður nú foreldrum sem taka þátt einn mánuð frían fyrir sín börn í leikskóla. Næstu Uppeldi sem virkar- færni til framtíðar námskeið hér á Hornafirði verða haldin í janúar og mars 2023, fjóra þriðjudaga hvort námskeið. Hægt er að skrá þátttöku í leikskólanum Sjónarhóli; með tölvupósti til sigridurgisl@hornafjordur.is og á heilsugæslustöðinni í síma 432-2900 milli 11 og 12 virka daga.

Foreldrahlutverkið

Að vera foreldri er eitt mikilvægasta og mest krefjandi hlutverk fullorðinsáranna. Nauðsynleg uppeldisfærni er hins vegar hvorki meðfædd né sjálfgefin og eðlilegt að það taki tíma og fyrirhöfn að tileinka sér það sem til þarf. Til að fyrirbyggja mistök og rétta kúrsinn ef eitthvað hefur farið úrskeiðis er boðið upp á uppeldisnámskeið um heppilegar aðferðir og hvernig best er að beita jákvæðum aga. Umræða um vaxandi agaleysi barna almennt, hegðunarvanda á heimilum og í leik- og grunnskólum bendir til þess að uppeldisfræðsla sé mikilvæg sem aldrei fyrr.

Uppeldi sem virkar – færni til framtíðar 

Námskeiðið Uppeldi sem virkar – færni til framtíðar er sérstaklega þróað fyrir foreldra á Íslandi og stuðst er við viðurkennd fræði og vel rannsakaðar aðferðir.

Á námskeiðinu er lögð áhersla á að kenna foreldrum leiðir til að vera samtaka í uppeldinu og skapa uppeldisskilyrði sem ýta undir færni sem líkleg er til að nýtast barninu til frambúðar. Foreldrar læra aðferðir til að styrkja eigin hæfni, laða fram æskilega hegðun barnsins og fyrirbyggja erfiðleika á jákvæðan hátt. Námskeiðið byggir á Uppeldisbókinni og hentar foreldrum barna frá fæðingu og að minnsta kosti sex ára aldri.

Þróun námskeiðsins var í höndum Gyðu Haraldsdóttur sálfræðings og Lone Jensen uppeldisráðgjafa. Ákall kom frá foreldrum og hjúkrunarfræðingum í ung- og smábarnavernd heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins um meiri uppeldisfræðslu og var verkið unnið með styrk frá Lýðheilsusjóði.

Uppeldi

Uppeldi snýst um að hjálpa börnum að tileinka sér hegðun og færni sem líklegt er að nýtist þeim í framtíðinni. Æskilegir eiginleikar eða færni sem flestir foreldrar vilja gjarnan sjá hjá börnum sínum eru t.d. góð samskiptafærni, sterk sjálfsmynd, færni til að róa sig og að hemja skap sitt, góð tilfinningatengsl, trú á eigin getu og traust til annarra, samhygð og að deila með öðrum.

Færni sem verndar

Eftirfarandi eru verndandi þættir þegar barnið stendur frammi fyrir nýjum þroskaverkefnum, áskorunum, jafningjaþrýstingi eða hættulegum freistingum:

 

  • · Barnið er vant reglum, að virða þær og kann að hafa hemil á sér
  • · Barnið býr yfir sjálfsaga og veit að það er ekki hægt að gera allt
  • · Barnið hefur sjálfsöryggi og er fært að setja sér mörk og öðrum mörk
  • · Barnið hefur sterka sjálfsmynd og þekkir hinar ýmsu tilfinningar
  • · Barnið hefur vanist því að geta rætt við foreldra sína um hugðarefni og áhyggjur
  • · Barnið hefur áhugamál; stundar íþróttir eða aðrar tómstundir

 

Foreldrar eru hvattir til að skrá sig á námskeiðið Uppeldi sem virkar - færni til framtíðar og efla sig í uppeldishlutverkinu.

Sigríður Kr. Gísladóttir skrifaði greinina. Hún og Þóra Jóna Jónsdóttir héldu síðasta námskeið en auk þeirra eru sex aðrir sem halda þessi námskeið.