Útikubbar fyrir styrk frá Hirðingjunum
Síðasti dagur leikskólans Sjónarhóls fyrir sumarfrí er á morgun en víst er að það verður spennandi fyrir börnin að koma aftur á leikskólann að leika með frábæra útikubba sem keyptir voru fyrir rausnalegan stuðning frá Hirðingjunum - sjá frétt af heimasíðu Sjónarhóls.
Við erum afar þakklát og stolt að tilkynna um einstaka gjöf sem leikskólinn okkar hefur fengið frá Hirðingjunum. Þessi veglega gjöf, sem nemur tveimur milljónum króna, hefur nú þegar verið nýtt til að kaupa vandaða útikubba sem munu gjörbreyta útinámi og leik barnanna.
Kubbarnir, sem eru frá hinu virta fyrirtæki Community Playthings, eru sérstakir að því leyti að þeir eru hannaðir fyrir útileik og þola bæði vatn og vinda. Community Playthings er fyrirtæki sem hefur verið leiðandi í framleiðslu leikfanga og húsgögnum fyrir leikskóla í yfir 70 ár, er þekkt fyrir gæðaframleiðslu sína og endingargóðar vörur. Þessir kubbar opna alveg nýja vídd í útinámi barnanna og bjóða upp á ótakmarkaða möguleika í skapandi leik. Þeir eru frábær viðbót við aðra kubba sem við eigum frá sama fyrirtæki inni á deildum, Holukubba og Einingakubba. Kubbarnir eru opinn efniviður sem þýðir að börnin geta notað ímyndunaraflið og sköpunarkraftinn að vild. Hvort sem þau vilja byggja kastala, brýr, bíla eða ævintýraheima, þá setja einungis hugmyndaflugið og sköpunarkrafturinn mörkin. Hægt er að nota þá í vatnsleiki, sem bætir enn einni vídd við leikinn. Þetta gefur starfsfólki tækifæri til að samþætta m.a. náttúrufræði, stærðfræði og skapandi hugsun í gegnum leik. Þær í Hirðingjunum eiga stórt hrós skilið fyrir þeirra frábæra starf og þátt í uppbyggingu í samfélaginu. Við erum virkilega þakklát þeim að hafa gefið okkur tækifæri á því að skapa enn betra námsumhverfi fyrir börnin.
Við viljum enn og aftur þakka Hirðingjunum fyrir þessa rausnarlegu gjöf sem mun án efa hafa jákvæð áhrif á nám og þroska barnanna á Höfn um ókomin ár.