Velheppnað barna- og ungmennaþing
Þriðjudaginn 18. nóvember var barna- og ungmennaþing í Sveitarfélaginu Hornafirði.
Þriðjudaginn 18. nóvember var barna- og ungmennaþing í Sveitarfélaginu Hornafirði. Um 300 ungmenni tóku þátt m.a. allir nemendur grunnskólanna, allir nemendur FAS ásamt elstu börnum leikskólans en einnig ungt fólk sem komið er út á vinnumarkaðinn. Barna- og ungmennaþingið sem skipulagt var af ungmennaráði sveitarfélagsins er liður í því að gefa börnum og ungu fólki rödd og virkja til þátttöku í samfélaginu en einnig að temja fullorðna fólkinu að hlusta á raddir barna og ungs fólks. Það er skemmst frá því að segja að þingið tókst afskaplega vel. Þar var mikið rætt og fjölmargar hugmyndir komu fram sem nýtast munu sveitarstjórn og starfsfólki sveitarfélagsins en einnig í stofnunum í sveitarfélagsins og almenningi öllum. Samhliða þinginu var unnið í nokkrum rýnihópum til að gefa fámennum hópum sterkari rödd. Má þar nefna börn af erlendum uppruna, börn í dreifbýli, börn með fötlun og ungt fólk í atvinnulífinu.
Í dag 20. nóvember á degi Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna voru fyrstu niðurstöður kynntar, bæði í Grunnskóla Hornafjarðar og í FAS auk þess sem kynningin í FAS var senda út m.a. í Hofgarð.
Hér má sjá útsendinguna Hér fyrir ofan er útsendingin en töluverð vinna er enn eftir í að vinna úr niðurstöðum rýnihópa og frá þeim sem skiluðu niðurstöðum í samfelldu máli.
Til að draga saman rauða þráðinn í kynningu dagsins þá er vill ungt fólk í Sveitarfélaginu Hornafirði einfaldlega gott samfélag. Félagslíf, góða vini, samveru, viðburði og stað þar sem fólk getur kynnst og verið saman.
Það kom skýrt fram að ungt fólk vill að á það sé hlustað, að því sé sýndur raunverulegur áhugi og að það fái að tilheyra.
Unga fólkið vill góða skóla, góða kennslu og góðan aðbúnað í skólunum ekki síst á skólalóðinni. Það vill fjölbreytt íþróttalíf, góða aðstöðu til að stunda íþróttir, góða göngu- og hjólastíga sem eru öruggir og vel lýstir og samfélag þar sem fólk hlúir hvert að öðru.
„Við viljum að sveitarfélagið okkar sé staður þar sem öllum líður vel, öllum gefst kostur á að blómstra og þar sem rödd ungs fólks hefur raunveruleg áhrif“.
Næstu dagar munu fara í frekari úrvinnslu á niðurstöðum og í framhaldinu verða þær kynntar fyrir fastanefndum sveitarfélagsins og inn í stofnunum þess. Að lokum má svo geta þess að niðurstöður barna- og ungmennaþingsins munu leggja grunn að næstu aðgerðaráætlun í Barnvænu sveitarfélagi sem vonandi lítur dagsins ljós um mitt næsta ár.


