Verkefna og rekstrarstyrkir sveitarfélagsins. Umsóknarfrestur framlengdur til miðnættis 5.jan
Vegna þess að umsóknarform lokaðist tólf tímum of snemma í íbúagáttinni fyrir verkefnastyrki hefur umsóknarfrestur verið framlengdur út 5. janúar til kl. 24:00 á miðnætti.
Sveitarfélagið Hornafjörður hefur innleitt nýtt og samræmt fyrirkomulag styrkveitinga. Markmið þess er að einfalda umsóknarferli og tryggja jafnræði við úthlutun styrkja. Borið hefur á óvissu um verkefna og rekstrarstyrki og verður því farið yfir hér að neðan hvernig sækja skuli um hvorn styrk fyrir sig.
Verkefnastyrkir – afmörkuð verkefni með upphaf og endi
Verkefnastyrkir eru ætlaðir til stuðnings afmörkuðum verkefnum eða viðburðum sem hafa skýrt upphaf og skýran endi. Dæmi um slík verkefni geta verið menningarviðburðir, fræðsluverkefni, hátíðir eða einstök átaksverkefni.
- Sótt er um verkefnastyrki á íbúagátt sveitarfélagsins.
- Umsóknir eru metnar sameiginlega af atvinnu- og menningarmálanefnd og fræðslu- og frístundanefnd.
- Styrkir eru veittir til fjölbreyttra verkefna og afhentir við hátíðlega athöfn á Menningarhátíð sveitarfélagsins.
- Umsóknarfrestur fyrir verkefnastyrki er til miðnættis 4. Janúar 2026.
Rekstrarstyrkir – stuðningur við starfsemi félaga og samtaka
Sveitarfélagið styður áfram, í undantekningartilfellum, við félagasamtök og stofnanir á svæðinu með rekstrarstyrkjum. Rekstrarstyrkir eru veittir til að styðja við almenna starfsemi og rekstur félaga eða samtaka, en ekki til einstakra verkefna. Um er að ræða stuðning sem miðar að því að tryggja stöðugleika í rekstri og mikilvæga samfélagslega starfsemi.
- Ekki er sótt um rekstrarstyrki í íbúagátt.
- Vel rökstuddar óskir um rekstrarstyrki skulu sendar beint til bæjarráðs með tölvupósti á netfangið:
baejarrad@hornafjordur.is
Í slíkri styrkbeiðni þurfa eftirfarandi upplýsingar að koma fram:
- upplýsingar um starfsemina
- upphæð eða stuðningur sem óskað er eftir
- rökstuðningur fyrir styrkbeiðninni
Hver umsókn um rekstrarstyrk verður tekin fyrir og metin sérstaklega. Við mat er meðal annars horft til fjárhagsstöðu, starfsemi félagsins og samfélagslegs gildis. Sé styrkur samþykktur er gerður samningur við viðkomandi félag.
Vakni upp frekari spurningar um styrktarfyrirkomulag eða umsóknarferli sveitarfélagsins er alltaf velkomið að hafa samband við Vilhjálm, verkefnastjóra markaðsmála og viðburða, vilhjalmur@hornafjordur.is.

