Vinningstillaga um Leiðarhöfða vann til verðlauna í virtri arkitektakeppni

18.11.2022

Hönnun Leiðarhöfða vinnur til verðlauna á The World Architecture News Awards 2022

Vorið 2021 fékk Sveitarfélagið Hornafjörður styrk frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til að standa fyrir hönnunarsamkeppni um Leiðarhöfðann á Höfn, og fór keppnin fram síðastliðinn vetur. Alls komu fram níu hugmyndir og að lokum var það tillaga frá Hjark, Sastudio og Landmótun, Umhverfis Leiðarhöfða, sem bar sigur úr býtum. Ljóst er að tillagan heillaði fleiri en Hornfirðinga, því í dag vann hún til bronsverðlauna í virtri alþjóðlegri arkitektakeppni, „The World Architecture News Awards“ (WAN). Verðlaunin voru í flokki um Samfélagsleg rými, enda er Leiðarhöfðinn hugsaður sem aðlaðandi samkomustaður fyrir íbúa og gesta.

Þetta eru virkilega stórar fréttir þar sem kröfurnar til þátttöku í keppninni eru miklar, eða eins og kemur fram á heimasíðu WAN: To ensure only the very best work and people make it through to the shortlist we bring together a jury of top industry professionals - we take pride in the depth and rigorousness of our judging process. Í stuttu máli má segja að til að tryggja þátttöku hjá aðeins hinum allra bestu þá ræður keppnin einungis til sín færustu dómarana úr faginu. Að ganga út með verðlaun er því rós í hnappagatið hjá öllum þeim sem að verkinu stóðu, og staðfesting fyrir okkur Hornfirðinga um að við séum með framúrskarandi hönnun í höndunum fyrir þann einstaka stað sem Leiðarhöfðinn er.

Nánari upplýsingar um „Umhverfis Leiðarhöfða“:

Nánar má sjá um keppnina hér.

Árdís Erna Halldórsdóttir

Atvinnu- og ferðamálafulltrúi