Vorfundir stjórnenda í fræðslu- og velferðaþjónustu
Dagana 28.-30. apríl heimsótti Hornafjörð rúmlega 100 manna hópur stjórnenda í fræðslu- og velferðarþjónustu, auk fulltrúar frá mennta- og barnamálaráðuneytinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Miðstöð menntunar og skólaþjónustu. Tilefni heimsóknarinnar voru vorfundir aðila í fræðslumálum annars vegar og í velferðarþjónustu hins vegar. Stjórnir félaganna ákváðu að hluti fundanna skyldi vera sameiginlegur þar sem stór mál eins og innleiðing farsældarlaganna skarast milli félaganna. Þetta var í fyrsta skipti sem þessir fundir eru að hluta til sameiginlegir en þess má geta að rúmlega tugur sveitarfélaga er með velferðarmál og fræðslumál á sama sviði sem kallast þá oftast fjölskyldusvið. Eins og gefur að skilja hentar það slíkum sveitarfélögum einkar vel að hafa sameiginlegan fund.
Það er skemmst frá því að segja að fundirnir heppnuðust mjög vel. Met mæting var frá báðum félögum og almenn ánægja með að funda saman. Á sameiginlega fundinn mætti Guðmundur Ingi Kristinsson mennta- og barnamálaráðherra og ávarpaði fundargesti og tók síðan þátt í dagskránni það sem eftir var dagsins.
Ekki skemmdi fyrir fundarhöldum að Hornafjörður skartaði sínu allra fegursta þessa daga og fundargestir lofuðu bæði höfðinglegar móttökur, góða aðstöðu og síðast en ekki síst einstakt umhverfi.
Sveitarfélagið bauð til móttöku í Nýheimum þar sem bæjarstjórinn Sigurjón Andrésson sagði frá sveitarfélaginu og vakti framsögn hans almenna hrifningu gesta og var hópmyndin tekin við það tækifæri.