Yfirlýsing vegna umræðu í tengslum við dómsmál

27.10.2021

Vegna fjölmiðlaumfjöllunar í tengslum við dómsmál þar sem Sveitarfélagið Hornafjörður er tengt inn í umræðuna vill bæjarstjórn senda frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

Ráðning framkvæmdastjóra

Fyrst ber að nefna ráðningu í starf framkvæmdastjóra HSU á Hornafirði. Staðan var auglýst í Eystrahorni, á heimasíðu sveitarfélagsins, í Fréttablaðinu og fleiri miðlum. Capacent var fengið til að sjá um ráðninguna. Þegar listi umsækjenda var birtur var ljóst að fjölskyldutengsl voru milli bæjarstjóra og eins umsækjenda. Ákveðið var að Ólöf Ingunn Björnsdóttir, staðgengill bæjarstjóra myndi koma að ráðningarferlinu í stað bæjarstjóra. Lokaákvörðun um ráðninguna áttu svo bæjarráð og bæjarstjórn í samráði við ráðgjafafyrirtækið Capacent sem hafði lagt faglegt mat á umsækjendur og mælt með þeim umsækjanda sem var ráðinn.

Vegna lögreglurannsóknar og dómsmáls

Þegar sveitarfélagið var upplýst um það í apríl 2019 að brotaþoli hefði lagt fram kæru á hendur umræddum stjórnanda tók staðgengill bæjarstjóra að sér samskipti vegna málsins með stuðningi og ráðgjöf bæjarstjórnar. Þar á meðal voru samskipti við brotaþola. Áður en atvik málsins áttu sér stað hafði brotaþoli sagt upp störfum sínum hjá sveitarfélaginu. Samskiptin snérust því fyrst og fremst að vinnutilhögun á því sem eftir var af uppsagnarfresti, sem ákveðið var að yrði í fjarvinnu að ósk brotaþola.

Þá tekur sveitarfélagið fram að fyrst þegar tilkynnt var um málið kom í ljós að ágreiningur var um málsatvik. Því var hafin rannsókn hjá lögreglu til að freista þess að leiða í ljós hvað hefði gerst. Í ljósi þess að brotaþoli var ekki undirmaður umrædds stjórnanda, starfaði ekki með honum dags daglega, hafði þegar sagt starfi sínu lausu og fengið vilyrði fyrir að vinna uppsagnarfrest sinn í fjarvinnu, leit sveitarfélagið svo á að ekki væri tilefni til frekari aðgerða af hálfu þess meðan á rannsókn lögreglu stæði. Í mars 2021, þegar ákæruvaldið tók ákvörðun um að ákæra í málinu hafði starf umrædds stjórnanda færst til annars vinnuveitanda og hann því ekki lengur starfsmaður sveitarfélagsins. Þegar dómur féll í október 2021 voru því engar forsendur til aðgerða af hálfu sveitarfélagsins þar sem báðir málsaðilar höfðu látið af störfum hjá sveitarfélaginu.

Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Hornafjarðar