• Mynd_23452345

Hornafjöður, náttúrulega! Drög birt á samráðsvef Betra Ísland

21.11.2025

Drög að endurskoðaðri heildarstefnu sveitarfélagsins; Hornafjörður, náttúrulega! Stefnan hefur verið birt á samráðsvefnum Betra Ísland. Þar gefst íbúum, starfsfólki og öðrum hagaðilum tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum og ábendingum áður en stefnan verður fullmótuð.

Heildarstefna sveitarfélagsins gildir til loka árs 2025 og hefur vinna að endurskoðun hennar staðið yfir frá upphafi árs. Í ferlinu hafa sviðsstjórar unnið ítarlega greiningu á verkefnum og markmiðum hvers sviðs, ásamt því að skoða hlutverk sveitarfélagsins í heild.

Í drögunum er lagt til að stefnan verði einfaldari og skýrari en áður og að meginstoðirnar verði þrjár: umhverfi, fólk og þjónusta. Með þessari breytingu er ætlunin að tengja stefnuna betur við daglegt starf sveitarfélagsins og skýra betur hlutverk hvers sviðs í innleiðingu stefnunnar⁠.

Aðgerðaráætlanir fyrir hverja stoð fylgja stefnudrögunum en þar má sjá markmið og aðgerðir sem mótaðar voru í sameiginlegri vinnu sviðsstjóra og starfsfólks⁠.

Hvernig tek ég þátt í samráðinu?

Drögin eru aðgengileg hér:  Hlekkur á vef Betra Ísland

Þú getur sent inn rök eða athugasemdir með eða án innskráningar. Ef þú skráir þig inn getur þú valið hvort þú birtir nafnið þitt.

1. Farðu inn á hlekkinn þar sem verkefnið „Hornafjörður, náttúrulega!“ er á Betra
    Ísland.

2. Smelltu á málið. Þar koma upp drög að stefnu og aðgerðaáætlunum stoðanna
    í lýsingunni er hlekkur þar sem hægt er að lesa skjölin í heild sinni.

3. Settu fram athugasemdir, hugmyndir eða rökstuðning við þau atriði sem þú vilt tjá
    þig um.

4. Þú getur einnig sett hjarta við hugmyndir annarra eða tekið þátt í umræðu.

Allar innsendar ábendingar fara beint inn í vinnu sveitarfélagsins og verða nýttar við endanlega mótun stefnunnar og aðgerðaáætlana.

Af hverju er mikilvægt að taka þátt?
Stefna sveitarfélagsins er heildarstefna okkar allra og markar framtíðarsýn Sveitarfélagsins Hornafjarðar. Þess vegna skiptir máli að sjónarmið íbúa komi fram, hvort sem þau snúa að umhverfismálum, þjónustu, velferð, skipulagi eða daglegu lífi í sveitarfélaginu.

Sveitarfélagið hvetur alla íbúa til að nýta tækifærið og taka þátt í mótun stefnunnar með því að senda inn umsögn í gegnum samráðsvefinn.

Hægt er að senda inn athugasemdir til og með 16. desember næstkomandi.

Hlekkir á pdf skjöl:
HORNAFJORDUR-NATTURLEGA-STEFNA-2025
Aðgerðaáætlun Þjónusta
Aðgerðaáætlun Fólkið
Aðgerðaáætlun Umvhverfið